Facebook-notendahandbók fyrir sveitarfélög

0
1279

Siggeir Fannar Ævarsson hefur starfað sem upplýsinga- og skjalafulltrúi hjá Grindavíkurbæ frá árinu 2014. Hann byrjaði í námi við Háskóla Íslands í vefmiðlun meðfram vinnu haustið 2016. Lokaverkefni Siggeirs, Facebook-notendahandbók fyrir sveitarfélög, vakti athygli Huxa. Við höfðum samband við Siggeir og báðum hann um að segja okkur betur frá tilurð og vinnslu verkefnisins.


Hugmyndin
Mig langaði að vinna verkefni sem ég gæti tengt á praktískan hátt við það sem ég er að gera í vinnunni dagsdaglega. Ég vil meina að mér hafi tekist nokkuð vel upp við að skapa Grindavík vettvang á Facebook og því lá vel við að reyna að miðla áfram þeim fróðleik sem ég hafði safnað að mér á síðustu árum. Hugmyndin var þá bæði að segja frá því sem vel hafði tekist til en líka vara fólk við mögulegum mistökum.

Vinnuferlið
Ég tók skriflotur þar sem ég skrifaði niður allt sem mér datt í hug, setti upp grófar kaflaskiptingar og sendi allt á Sigurjón Ólafsson, leiðbeinanda minn. Sigurjón las yfir efnið og sendi mér til baka mjög góða punkta og uppbyggilega gagnrýni. Svona gekk þetta 2-3 sinnum þangað til að ég var kominn með ansi heildstæða „bók“ sem ég setti svo að lokum upp sem vef.

Ég kann Sigurjóni bestu þakkir fyrir hans aðkomu að verkefninu. Hann kom með marga góða punkta í yfirlestrinum og benti mér einnig á nokkrar góðar heimildir sem ég notaði til að skjóta sterkari stoðum undir fræðilega hluta bókarinnar.

Það sem kom á óvart
Öll sveitafélög virðast loksins vera komin með like-síður en ekki vinasíður. Það er ekki langt síðan það breyttist og ég reiknaði með að þurfa að taka nokkrar málsgreinar í að kenna fólki að stofna like-síður.

Það kom mér líka á óvart hvað það er erfitt að finna greinar og fræðslu um Facebook og samfélagsmiðlanotkun sveitarfélaga. Allt kennsluefni og öll blogg er alltaf út frá einkaaðilum og fyrirtækjum og það er stundum svolítið snúið að heimfæra þetta efni upp á sveitarfélög.

Stjórnarráðið má þó eiga það að þau hafa gert vel í að uppfæra efni eins og vefhandbókina, en betur má ef duga skal og vonandi setur ríkið meiri kraft í þessa vinnu. Það er lítið gagn í því að vera alltaf nokkrum skrefum á eftir þróuninni á vefnum, sem er mjög hröð.

Verkefnið var skemmtilegt tækifæri til að skoða það sem ég hef verið að gera í vinnunni undanfarin fjögur ár með gagnrýnum augum og um leið að kynna mér enn betur blogg, greinar og fræðileg skrif um það hvernig maður getur nýtt sér krafta Facebook sem best fyrir sveitarfélagið.

Markmið
Það væri gaman að fara lengra með verkefnið og kynna það fyrir fleirum sem eru í sömu eða svipaðri stöðu og ég. Ef ég gef mér tíma í það væri gaman að fara með þetta lengra og halda fyrirlestra og kynningar fyrir önnur sveitarfélög.

Ég á líka alltaf eftir að klára að setja upp skjalið sem inniheldur hina eiginlegu bók, eins og er er þetta eingöngu á veformi.

Framtíðarspá
Sveitarfélögin eru á Facebook því að allir eru á Facebook. Myspace hvarf nánast á einum degi og Facebook gæti alveg farið sömu leið. En meðan fólkið er þar verðum við þar. Það sem skiptir þó mestu máli og við megum ekki missa sjónar á er að Facebook er fyrst og fremst staður til að miðla efni áfram. Sveitarfélög mega ekki gleyma á því að Facebook er bara eitt verkfæri sem við höfum til að koma okkar efni á framfæri, og við þurfum að vera á tánum og vera opin fyrir nýjungum og breytingum.

Vefútgáfa af verkefni Siggeirs.