Reynslusaga: þarfagreining fyrir Huxa

0
1007

Hugmyndin að Huxa fæddist á fallegu vetrarkvöldi árið 2017 er við gengum um götur Reykjavíkurborgar og ræddum okkar á milli valmöguleika fyrir lokaverkefni í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.

Í gegnum námið höfum við ítrekað rekið okkur á að það virtist vanta miðlægan vettvang til að tengja saman nema, fagólk og áhugafólk innan stafrænnar miðlunar. Út frá því var ákveðið að gera vef um stafræn mál og velja samfélagsmiðla til að styðja við vefinn. Áður en vinna við vefinn gat hafist var gerð þarfagreining til að kynnast notendum og þeirra þörfum. Í framhaldinu var vefur og samfélagsmiðlar mótaðir út frá niðurstöðum hennar.

Hugarflugsfundur
Þarfagreininging hófst með hugarflugsfundi þar sem að stofnendur hittust til að henda fram hugmyndum og skrásetja þær.
 Á fundinum var hugmyndin þróuð áfram með hugarflugi. Markhópar voru skilgreindir og markmið með vefnum sett fram. Gerð var SVÓT-greining og þrír samfélagsmiðlar valdir sem líklegt var talið að gætu hæft vef um stafræna miðlun.

Samfélagsmiðlarnir voru Facebook, Instagram og LinkedIn.Viðtöl
Tekin voru samtals átta viðtöl við fulltrúa úr markhópunum sem skilgreindir voru á hugarflugsfundinum. Fjögur viðtöl voru tekin við sérfræðinga í stafrænni miðlun og fjögur við nemendur í vefmiðlun við Háskóla Íslands. Viðtölin fóru fram augliti til auglitis en einnig voru sendir út spurningalistar.

„Það væri þægilegt að hafa nýjustu upplýsingar í vefmálum á einum stað og geta fylgst með örri þróun.“

„Fólk vill sjá hvað fyrirtækin eru að gera, vill sjá mannlegu hliðina en ekki eitthvað fake front.“

Samanburðargreining
Samanburðargreining var gerð þar sem valdir voru sex vefir sem fjalla á einhvern hátt um stafræna miðlun. Leitast var við að finna jákvæða hluti sem hægt væri að nota sem fyrirmynd á nýja vefnum. 

Myndir þú nýta þér vef á íslensku sem miðlar efni um stafræna miðlun með áherslu á notendaupplifun (UX)?

Netkönnun
Nú var komið að því að gera netkönnun sem send var á markhópana sem skilgreindir höfðu verið. Stuðst var við niðurstöður úr hugarflugsfundi, viðtölum og samanburðargreiningu þegar spurningar netkönnunarinnar voru samdar. Tilgangurinn með netkönnuninni var að ná fram viðhorfum um væntanlegan vef og samfélagsmiðla. Hún var send til nemenda í vefmiðlun við Háskóla Íslands, þriggja faghópa á Facebook og til 30 sérfræðinga og nemenda innan stafrænnar miðlunar. Netkönnuninni var svarað af 32 einstaklingum.

Persónur og notendasögur
Þarfagreiningin var á þessum tímapunkti farin að gefa okkur nokkuð góða mynd af markhópum vefsins. Til þess að fá betri tilfinningu fyrir þörfum, væntingum og markmiðum hvers hóps voru búnar til persónur og notendasögur fyrir hvern markhóp


Skissuvinna

Þegar hér var komið við sögu var hugmyndin farin að taka á sig nokkuð gott form. Hún var því tekin úr slípirokknum og farið að vinna með hana.

Vefurinn var teiknaður upp gróflega með línum og uppbyggingu og áherslum vefsins gerð skil. Skilgreind voru lykilverkefni vefsins og unnið út frá þeim. Fyrst voru nokkrar útgáfur teiknaðar upp með penna á blað og tvær bestu valdar. Þá var vefurinn skissaður upp (e. wireframe) í tölvu með forritinu „Balsamiq“.

Ákveðið var að fara í stefnumótunarvinnu fyrir samfélagsmiðla Huxa og gerð var nokkuð nákvæm og tæmandi samfélagsmiðlastefna.

Huxa var ekki lengur hugmynd heldur skriðin úr púpunni og farin að taka á sig mynd. Við tók efnisvinna og uppsetning vefsins Huxa.is.